Hverjar erum við og hvert er markmið okkar?
Um okkur
Snúsnú bókaútgáfa:
Hrafnhildur Halldórsdóttir hefur starfað sem talmeinafræðingur síðastliðin 20 ár, lengstan hluta starfsferilsins á Heyrnar– og talmeinastöð Íslands en frá 2023 á Geðheilsumiðstöð barna.
Hefur hún sinnt greiningum, talþjálfun, ráðgjöf og fræðslu fyrir bæði börn og fullorðna. Hún hefur sinnt börnum með málþroskavanda og framburðarfrávik tengdum heyrnarskerðingu og skarði í gómi og/eða vör sem og endurhæfingu fullorðinna með kuðungsígræðslu og einnig snemmtækri íhlutun ungra barna.
Í starfi sínu hefur hún leiðbeint sérkennurum og leikskólastarfsfólki með sérhæfðan stuðning fyrir börn með sérþarfir.
Hrafnhildur tók þátt í að móta og virkja þverfaglegt teymi fyrir börn fædd með skarð í samvinnu við Landspítalann.

Signý Gunnarsdóttir hefur starfað sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur á stofu og einnig í grunnskólum og starfar nú sem sérfræðingur í málþroska og læsi hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Megin áhersla í starfi hennar hefur verið að auka meðvitund fagfólks og foreldra á málþroskavanda barna, bæði einkenni og úrræði. Áður en Signý hóf störf sem talmeinafræðingur starfaði hún sem blaðamaður á Morgunblaðinu og þar á undan sem textasmiður á auglýsingastofunni Gott fólk. Á Morgunblaðinu ritstýrði hún m.a. Barnablaðinu í 8 ár.
Signý er höfundur og hugmyndasmiður örþáttanna, Vinafundur, sem sýndir voru á Stöð 2 vorið 2020 og má finna á streymisveitu Stöðvar 2. Signý er höfundur örþáttanna Börn sem sýndir voru á MBL sjónvarp 2012. Signý er einnig höfundur þrautabókanna Heilakrot sem voru gefnar út 2009 af útgáfufélaginu Góður dagur.

Markmið okkar
Þær Hrafnhildur og Signý hafa lengi rætt þörfina fyrir betra aðgengi að málörvandi efni fyrir ung börn sem búa á Íslandi. Þær ákváðu að hætta að ræða um vandann og ráðast frekar í verkið og framkvæma sjálfar. Þær stofnuðu Snúsnú bókaútgáfu sem hefur það að leiðarljósi að gefa út málörvandi bækur fyrir börn á aldrinum 0-3 ára.
